Þeim hefur fjölgað hratt síðustu dagana sem greinst hafa með veiruna. Nú eru 1.359 með kórónuveiruna og í eftirliti hjá Covid-19 göngudeild Landspítalans. Þar af eru 324 börn en mörg þeirra eru ekki bólusett þar sem bóluefni stendur börnunum ellefu ára og yngri ekki til boða.
Hertar reglur vegna faraldursins tóku gildi í dag. Nú mega aðeins fimm hundruð manns koma saman og afgreiðslutími vínveitingastaða hefur verið styttur. Þar að auki tók grímuskylda aftur gildi síðustu helgi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að herða þurfir reglurnar frekar til að ná að draga úr útbreiðslu veirunnar.
„Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þróuninni og þessum veldisvexti sem er í greiningunum og þeirri stöðu sem við sjáum að við erum svona að missa tökin víða á faraldrinum eins og hann er og þá er í raun og veru ekki, að mínu mati, nema um eitt að ræða það er að reyna að herða tökin og reyna að beita þeim ráðum sem við höfum beitt áður til þess að ná smitunum niður í samfélaginu og það verður ekki gert nema með takmörkunum og vissulega geta einstaklingar hjálpað okkur með því að bæta sínar einstaklingsbundnu sóttvarnir en það virðist bara ekki hafa dugað til til þessa,“ segir Þórólfur.
Fimmtán liggja nú á Landspítalanum með Covid-19 þar af eru þrír á gjörgæslu. Þá eru þrír með sjúkdóminn á Sjúkrahúsinu á Akureyri en einn þeirra er í öndunarvél. Þórólfur undirbýr nýtt minnisblað til heilbrigðisráðherra.
„Mér finnst þróunin vera slæm og ég held að það þurfi að gera eitthvað áður en við siglum í strand.“