Bretar hafa hækkað viðbúnaðarstig landsins vegna hryðjuverkahættu eftir sprenginguna. Þetta segir í frétt The Guardian um málið.
Sprengingin er flokkuð sem hryðjuverk en að sögn lögreglu er enn ekki vitað hvað árásarmanninum gekk til eða hvert skotmarkið var.
Leigubílstjórinn David Perry læsti manninn inni í bíl sínum fyrir utan kvennasjúkrahúsið í Liverpool til að forða manntjóni og hefur verið hylltur sem hetja.
Árásarmaðurinn lést þegar sprengjan sprakk í bílnum en leigubílstjórinn slapp með áverka og er sagður í stöðugu ástandi á spítala. Fjórir hafa verið handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga vegna málsins.