Skoðun

Pældu í því hversu frábært og magnað eintak þú ert!

Kristján Hafþórsson skrifar

Mig langar til þess að skrifa niður nokkur orð um það hversu frábært lífið er, hversu mögnuð manneskja þú ert og hversu hverfult lífið getur verið. Pældu í því hvað maður er heppinn að fæðast. Pældu í því hversu magnað og yndislegt lífið er. Maður skal sko aldeilis njóta veru sinnar hér á þessari jörðu því það eru því miður margir teknir alltof snemma frá okkur og margir sem lenda mjög illa í því í lífinu. Ég veit hversu hverfult lífið getur verið þar sem ég missti föður minn þegar ég var að verða 16 ára gamall. Ég veit hversu skjótt dauðinn getur bankað að dyrum. Þess vegna ákvað ég mjög fljótt eftir að þessi sorglegi atburður átti sér stað að vera sólarmegin í lífinu og reyna að sjá tækifæri og jákvæðni í öllum aðstæðum. Það auðvitað gengur ekki alltaf upp en maður verður að reyna. Maður verður að reyna að vera jákvæður og gefast aldrei upp, sama hvað á bjátar. Maður verður að átta sig á hversu heppinn maður er að vera til og ef eitthvað kemur upp á þá að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum.

Þú ert frábær og aldrei gleyma því. Þú ert ótrúlega hæfileikarík manneskja og getur allt sem þú vilt. Það eru engin takmörk á því sem þú getur gert. Finndu ástríðuna þína og ræktaðu hana því að lífið er svo sannarlega núna. Njóttu augnabliksins og láttu þau sem þú elskar vita hversu mikið þú elskar þau. Fólk er auðvitað mis upplagt frá degi til dags en ef maður að minnsta kosti man eftir og gerir sér grein fyrir því hversu heppinn maður er gefur það manni þó eitthvað til þess að byggja á ef maður er að eiga slæman dag.

Maður veit aldrei hvað næsta manneskja er að ganga í gegnum og því skal maður alltaf sýna náunganum kærleik og virðingu.

Aldrei gefast upp og mundu…Þú ert frábær.

Ást og friður.

Höfundur er lífskúnstner. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×