Innlent

2,6 milljón skráð samskipti á heilsugæslustöðvunum árið 2020

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Komur eru tíðastar hjá ungum börnum, meðal annars vegna ungbarnaeftirlits sem stöðvarnar sinna.
Komur eru tíðastar hjá ungum börnum, meðal annars vegna ungbarnaeftirlits sem stöðvarnar sinna.

Skráð samskipti heilsugæslustöðva árið 2020 voru 2,6 milljónir, eða 7 samskipti á hvern íbúa landsins. Um er að ræða töluverða fjölgun frá 2019, þegar skráð samskipti voru um 6 á hvern íbúa.

Með skráðum samskiptum er átt við viðtöl eða komur á heilsugæslustöðvarnar, vitjanir, símtöl og rafræn samskipti. Rafræn samskipti er sá flokkur þar sem aukningin er hvað mest.

Þetta kemur fram í nýjum Talnabrunni Embættis landlæknis.

Eins og vænta mátti hefur símtölum og rafrænum samskiptum fjölgað töluvert í kórónuveirufaraldrinum, á sama tíma og komum hefur fækkað. Komur, eða viðtöl eins og þær eru skráðar, voru samtals 900 þúsund árið 2020.

309 þúsund einstaklingar, eða 84 prósent landsmanna, nýttu sér þjónustu heilsugæslunnar í fyrra. Um 89 prósent af þeim voru með íslenskt ríkisfang. 223 þúsund einstaklingar, eða 61 prósent íbúa, ræddi við lækni en komur til þeirra voru um 500 þúsund, sem samsvarar 1,5 viðtölum per íbúa.

Ef nýting þjónustu heilsugæslustöðvana er skoðuð eftir aldri kemur í ljós að komur eru flestar hjá börnum yngri en eins árs en það má meðal annars rekja til ungbarnaverndar. Sé horft til kyns nýta konur þjónustuna meira en karlar en árið 2020 voru 58 prósent viðtala við konur.

Þetta má að einhverju leyti rekja til mæðraverndar, sem sinnt er á stöðvunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×