Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV þar sem rætt var við Þórólf. Sagðist hann hafa eytt gærdeginum í stíf fundarhöld með fulltrúum Evrópusambandsins sem vilji grípa til harðra aðgerða til þess að stemma í stigu við úbreiðslu þessa afbrigðis, á meðan sé verið að kanna alvarleika þess.
„Eftir að hafa fundað með þeim held ég að það sé fyllsta ástæða fyrir okkur að taka þátt í því. Sömuleiðis erum við að vinna að nýjum reglum á landamærunum varðandi próf hér frá fólki sem er að koma frá þessum löndum, og öðrum aðgerðum,“ sagði Þórólfur.
Vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar í Suður-Afríku og greiningar afbrigðisins í löndum utan Afríku í kjölfar ferðalaga ræður sóttvarnalæknir íbúum Íslands, óháð bólusetningu gegn COVID-19, frá ferðalögum til tiltekinna landa Afríku að nauðsynjalausu.
Löndin sem flug verða ekki heimil til Evrópu frá miðað við aðgerðir ESB eru eftirfarandi:
- Botsvana
- Esvatíní
- Lesótó
- Mósambík
- Namibía
- Suður Afríka
- Zimbabwe
Fram kom í frétt RÚV að Þórólfur reiknaði með að skila minnisblaðinu inn um helgina, líklega í dag. Það sé svo stjórnvalda að taka afstöðu til hvort og þá hvenær þeir aðgerða sem lagðar eru til í minniblaðinu taki gildi.
Ómíkron-afbrigðið var fyrst tilkynnt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þann 24. nóvember. Afbrigðið er mikið stökkbreytt og gefa rannsóknir til kynna að það smitist auðveldar manna á milli og hafa vísindamenn áhyggjur af því að það gæti komist í gegnum bólusetningar vegna stökkbreytinganna.