Innlent

Meiri aðsókn í örvunarbólusetningu í þessari viku

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rúmlega átta þúsund manns mættu í örvun í gær. 
Rúmlega átta þúsund manns mættu í örvun í gær.  Vísir/Vilhelm

Þriðja vika örvunarbólusetningarátaksins fór vel af stað í vikunni en um 20 þúsund manns fengu örvunarskammt í vikunni. Framkvæmdasjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu segir mætinguna hafa verið vonum framar og bíður spennt eftir næstu viku. 

Mikil aðsókn hefur verið í örvunarbólusetningu í Laugardalshöllinni undanfarna daga en um 20 þúsund manns fengu örvunarskammt síðastliðna þrjá daga, í þriðju viku bólusetningarátaks yfirvalda. Metfjöldi mætti til að mynda í örvunarbólusetningu í gær, eða rúmlega átta þúsund manns.

„Þetta gekk bara vonum framar, það voru yfir sjö þúsund á mánudaginn, yfir átta þúsund í gær og svo voru yfir fimm þúsund í dag, en það voru samt bara boðaðir tvö þúsund í dag þannig það voru þrjú þúsund sem komu aukalega,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það var meiri aðsókn í þessari viku, þetta hefur stigmagnast svolítið greinilega. Kannski er það umræðan um omíkron og fleira sem hefur haft þau áhrif að fólk er mögulega meðvitaðra og drífur sig í bólusetningu,“ segir Ragnheiður.

Einnig verður bólusett í höllinni á morgun og hinn, og hafa um þúsund manns verið að mæta þá daga að sögn Ragnheiðar en um er að ræða einstaklinga sem komust ekki á boðuðum tíma.„Svo er það bara síðasta vikan í næstu viku og þá er það loka hnykkurinn,“ segir Ragnheiður.

„Það eru líklega ekkert svo margir sem við boðum í næstu viku, ég held að það séu um tíu þúsund manns á mánudeginum og svo einhver nokkur þúsund á þriðjudeginum og þá er það líklega bara upp talið,“ segir Ragnheiður en hún segir að miðvikudagurinn verði líklegast opinn dagur fyrir þá sem eru komnir á tíma og eiga enn eftir að mæta.

Eftir að átakinu lýkur verður þó áfram bólusett með örvunarskömmtum en ekki er enn ákveðið hvar þær bólusetningar fara fram.


Tengdar fréttir

Muni skýrast á næstu vikum hvort herða þurfi aðgerðir vegna Ómíkron

Sóttvarnalæknir segir að það muni skýrast á næstu vikum hvort grípa þurfi til frekari aðgerða vegna útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Það eigi enn eftir að koma í ljós hvernig afbrigðið hagar sér en svo virðist sem það sé meira smitandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×