Jóhanna Guðrún á von á barni á næsta ári með kærasta sínum, Ólafi Friðriki Ólafssyni. Fyrir á hún tvö börn með tónlistarmanninum Davíð SIgurgeirssyni, en þau skildu fyrr á árinu.
Jóhanna Guðrún blómstrar á meðgöngunni. Í helgarviðtali Lífsins um helgina sagði söngkonan að hún væri komin yfir mestu ógleðina. Fyrstu vikurnar á öllum meðgöngunum hefur Jóhanna Guðrún verið að kljást við mikla ógleði, höfuðverki, orkuleysi og svima. Meðgöngurnar hafa svo gengið vel eftir að þessu tímabili lýkur.
„Þessir þrír, fjórir mánuðir í byrjun eru bara ógeðslegir fyrir mig.“
Hún stefnir á að syngja áfram á meðgöngunni eins og á fyrri tveimur, en ætlar þó að passa betur upp á sig.
„Ég er að einblína á börnin mín núna og að sinna þeim vel og taka þessi flottu verkefni sem ég er að gera föstum tökum. Ég prjónaði alveg yfir mig á síðustu meðgöngu og ég hugsa að ég ætli ekki að gera það núna, ég fór alveg fram úr mér. Það er gaman að vita að maður getur þetta en ég á tvö börn fyrir núna, það er öðruvísi en að vera með eitt barn fyrir. “