Samhliða þjálfun meistaraflokks hefur Jónatan þjálfað yngri flokka. Hann tók sér nokkurra daga frí frá störfum í þessari viku til að ná heilsu, eftir að hafa glímt við höfuðverk síðustu vikur, en segist ekki koma til með að missa af neinum leikja KA í Olís-deildinni. Liðið mætir næst Gróttu á heimavelli á sunnudag.
Endurkoma Heimis, sem verður annar aðstoðarþjálfara KA ásamt Sverre Jakobssyni, er þó öðrum þræði hugsuð til að minnka álagið á Jónatani.
„Ég er ekki að fara í veikindaleyfi og verð með í næsta leik. Við erum bara að breyta strúkturnum og fá fleiri með mér því það er búið að vera mikið að gera,“ segir Jónatan og bendir blaðamanni góðfúslega á að ekki sé um neina stórfrétt að ræða: „Ég er ekki að hætta. Þetta er ekki einhver hallarbylting.“

KA hefur átt afar erfitt uppdráttar á leiktíðinni og tapað sjö af tíu leikjum sínum. Liðið er í 10. sæti, einungis fyrir ofan nýliða Víkings og HK, og endurkomu Heimis því sjálfsagt ætlað að hjálpa til við að snúa gengi liðsins.
Heimir mun því ekki sinna dómgæslu í Olís-deildinni í vetur. Hann hætti sem aðstoðarþjálfari KA árið 2019 þegar Jónatan varð aðalþjálfari ásamt Stefáni Árnasyni, sem Heimir hafði aðstoðað. Áður stýrði Jónatan liði KA/Þórs í Olís-deild kvenna. Stefán steig svo til hliðar fyrir síðustu leiktíð og Sverre kom inn sem aðstoðarþjálfari.