Innlent

44 prósent boðaðra í desember hafa þegar þegið örvunarskammt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef marka má upplýsingarnar á covid.is hefur mæting í þriðja skammtinn verið afar góð það sem af er desember.
Ef marka má upplýsingarnar á covid.is hefur mæting í þriðja skammtinn verið afar góð það sem af er desember.

85 prósent þeirra sem áttu kost á því að mæta í örvunarbólusetningu fyrir nóvember hafa þegið þriðja skammtinn og 73 prósent þeirra sem gátu mætt í nóvember. Þá hafa þegar 44 prósent þeirra sem eiga kost á að mæta í desember þegar þegið örvunarskammt.

Þetta kemur fram á vefsíðunni covid.is.

Boðað er í örvunarskammt sex mánuðum eftir að fólk hefur verið fullbólusett með seinni skammtinum, nema hjá 70 ára og eldri, þá er biðtíminn þrír mánuðir.

Hópurinn sem átti kost á örvunarbólusetningu fyrir og í nóvember en hefur ekki þegið þriðja skammtinn telur um 20 þúsund einstaklinga. Um 35 þúsund hafa mætt í desember en heildarfjöldi þeirra sem eiga kost á að mæta í þessum mánuði er um 80 þúsund.

Af þeim sem hafa fengið viðbótarskammta af bóluefni eru 39.417 sem fengu viðbótarskammt eftir að hafa fengið einn skammt af Janssen, 76.052 sem hafa fengið örvunarskammt í kjölfar bólusetningar með efnunum frá Pfizer eða Moderna og 37.604 sem hafa fengið örvunarskammt eftir að hafa áður fengið bóluefnið frá AstraZeneca.

Næstum allir einstaklingar á aldrinum 70 ára og eldri hafa nú verið fullbólusettir og 70 til 80 prósent hópsins fengið örvunarskammt. Í aldurshópnum 40 til 69 ára hafa meira en 90 prósent verið bólusett og 52 til 62 prósent einstaklinga á aldrinum 50 til 69 ára þegið örvunarskammt.

Yngri hóparnir munu fá boðun í örvun eftir áramót, þegar nægur tími hefur liðið frá því að þeir voru fullbólusettir.  28 þúsund einstaklingar verða boðaðir í janúar, 38 þúsund í febrúar, 14 þúsund í mars og 6 þúsund samtals í apríl og maí.

Þeir sem voru bólusettir með Janssen fengu viðbótarskammt af öðru bóluefni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×