Greint var fyrsta tilfellinu á Íslandi þann 1. desember þegar afbrigðið greindist hjá sjúklingi sem lá inni á Landspítalanum. Síðan þá hafa alls 669 einstaklingar greinst með kórónuveiruna innanlands.
Mbl.is greindi fyrst frá nýjum fjölda omíkron-tilfella. Öll PCR-sýni sem tekin eru hér á landi eru send í raðgreiningu sem veitir upplýsingar um afbrigði veirunnar. Tíu höfðu greinst með omíkron á laugardag.
Mikil óvissa
Fram kom í nýlegu minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra að nú ríki miklir óvissutímar, bæði hvað varðar núverandi bylgju af völdum delta-afbrigðis kórónuveirunnar en líka þá þróun sem kunni að verða á faraldrinum með tilkomu omíkron-afbrigðisins.
Að sögn sóttvarnalæknis kunni sú staða að koma upp að omíkron afbrigðið sé meira smitandi en fyrri afbrigði, valdi verri sjúkdómi og að bóluefni og fyrri sýking verndi ekki gegn smiti. Þessi óvissa gefi tilefni til að fara varlega í tilslökun innanlands og á landamærum sem stendur.
Ef omíkron-afbrigðið reynist ekki valda skæðum sjúkdómi og bóluefnin halda áfram að virka, séu þó komnar faglegar forsendur til að ræða sérréttindi til handa þeim sem fengið hafa örvunarskammt.
Willum tilkynnti í dag að óbreyttar sóttvarnatakmarkanir yrðu í gildi næstu tvær vikurnar í ljósi þessarar óvissu. Fimmtíu mega nú koma saman en 500 er heimilt að koma saman á viðburðum framvísi fólk neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.