Körfubolti

Irving gæti látið undan ef hann fær plöntumiðað bóluefni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyrie Irving þráast við að láta bólusetja sig.
Kyrie Irving þráast við að láta bólusetja sig. getty/Rich Schultz

Svo gætið farið að Kyrie Irving láti af þrákelni sinni að láta bólusetja sig ef hann fær plöntumiðað bóluefni.

Irving hefur ekkert spilað með Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta í vetur þar sem hann er ekki bólusettur en óbólusett fólk má ekki taka þátt í íþróttum innanhúss í New York.

Irving hefur ekki gefið neina sérstaka ástæðu fyrir því af hverju hann vill ekki láta bólusetja sig. Hann hefur einfaldlega sagt að þetta sé besta ákvörðunin fyrir hann.

Fjölmiðlar vestanhafs greina nú frá því að Irving gæti loks látið undan, svo lengi sem hann fær plöntumiðað bóluefni en hann er vegan.

Plöntumiðuð bóluefni eru í vinnslu, meðal annars hjá kanadísku líftæknifyrirtæki sem freistar þess að fá bóluefnið samþykkt í mars á næsta ári.

Þrátt fyrir fjarveru Irving hefur Brooklyn vegnað vel í vetur og er á toppi Austurdeildarinnar með sautján sigra og sjö töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×