Sex fyrrverandi félagsmenn Hugarafls sendu í ágúst greinargerðir á ráðuneytið vegna starfs- og stjórnunarhátta samtakanna. Í kjölfarið barst ráðuneytinu beiðni frá Hugarafli um að gerð yrði óháð úttekt á samtökunum.
Fyrrverandi félagsmenn segja framkomu stjórnenda hafa verið eitraða og að hún hafi meðal annars lýst sér í einelti og ógnarstjórnun gegn almennum félagsmönnum. Forsvarsmenn Hugarafls hafa frá upphafi hafnað ásökununum.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra sagði í september að til skoðunar væri hvort og þá til hvaða ráðstafana yrði gripið vegna athugasemdanna.
Fram kom í svari ráðuneytisins þann 22. nóvember að fulltrúar þess hafi í þrígang fundað með fyrrverandi félagsmönnum Hugarafls sem afhentu ráðuneytinu greinargerðirnar. Fleiri félagsmenn Hugarafls, bæði núverandi og fyrrverandi, hafi í kjölfarið sett sig í samband við ráðuneytið og lýst upplifun sinni af Hugarafli.
Mikilvægt að það sé hafið yfir vafa að starfsemin uppfylli kröfur
Í gildi er þjónustusamningur milli Vinnumálastofnunar og Hugarafls um að samtökin veiti þjónustu á sviði starfsendurhæfingar fyrir fólk með geðraskanir.
Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að félagsmálaráðuneytið telji mikilvægt að hafið sé yfir vafa að starfsemi sem sé veitt á grundvelli samningsins uppfylli opinberar kröfur um faglega þjónustu, rekstur og eftirlit og að tryggt sé að þar sé veitt góð og viðurkennd starfsendurhæfing.
„Með hliðsjón af ábendingunum og með vísan til beiðni Hugarafls um úttekt telur ráðuneytið rétt að Vinnumálastofnun ráðist í úttekt á starfsemi samtakanna, en ákvæði þess efnis eru í samningi stofnunarinnar við samtökin.“
Sævar Þór Jónsson, lögmaður Hugarafls, sagði í nóvember að félagið hafi lagt fram kæru hjá lögreglu vegna alvarlegra hótana í garð starfsfólks og stjórnarmanna Hugarafls.
Félagsmálaráðuneytið styrkti Hugarafl um átta milljónir króna í lok síðasta árs. Sá styrkur snýr að rekstri opins úrræðis þetta ár og það næsta.
Stefán Þór Stefánsson tjáði sig um reynslu sína af starfsemi Hugarafls í Íslandi í dag í september. Hann kynntist Hugarafli árið 2015, varð virkur í starfsemi og kynnist unnustu sinni sem svipti sig lífi fyrr á árinu. Unnustan, Tinna Finnsdóttir, hafði verið skjólstæðingur Hugarafls og er að sögn Stefáns ein þeirra sem hlaut mjög ómaklega meðferð af hálfu stjórnenda samtakanna.