Handbolti

Teitur skoraði fjögur er Flensburg lagði Veszprém

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu virkilega sterkan sigur gegn Telekom Veszprém í kvöld.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu virkilega sterkan sigur gegn Telekom Veszprém í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu virkilega sterkan þriggja marka sigur gegn ungverska liðinu Telekom Veszprém, 30-27, er liðin mættust í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, en um miðjan fyrri hálfleikinn náðu Teitur og félagar góðu áhlaupi þar sem þeir skoruðu fimm mörk í röð og náðu þar með sex marka forskoti. Gestirnir frá Ungverjalandi náðu aðeins að kroppa í forskot heimamanna gyrir hlé, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 16-12, Flensburg í vil.

Teitur og félagar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust í sjö marka forystu, 19-12. Gestirnir náðu þó hægt og bítandi að vinna sig aftur inn í leikinn og þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka minnkuðu þeir muninn í eitt mark og æsispennandi lokamínútur framundan.

Nær komust gestirnir þó ekki og niðurstaðan varð þriggja marka sigur Flensburg, 30-27. Teitur Örn skoraði fjögur mörk fyrir heimamenn, en liðið er nú í fimmta sæti B-riðils með níu stig eftir tíu leiki. Veszprém situr í öðru sæti riðilsins með tólf stig, en sigur hefði fært þá upp að hlið Kielce í efsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×