„Þrátt fyrir að hagkerfið fari langleiðina með að jafna sig verður taumhald ríkisfjármála á næsta ári enn áþekkt því sem var 2020,“ segir í umsögninni en þar er bent á að ríkisútgjöld verði aukin um 2 prósent.
„Þessi mikli slaki á ríkisfjármálunum þýðir að ríkið mun að óbreyttu stuðla að meiri þenslu, meiri verðbólgu og hærri vöxtum en ella.“
Viðskiptaráð bendir á að umsvif hins opinbera hafi vaxið hratt ef litið er til fjölda stöðugilda. Í heild hafi stöðugildum hins opinbera fjölgað um 14 prósent milli áranna 2016 og 2020 samanborið við 1 prósents samdrátt stöðugilda í einkageiranum.
„Þessi þróun er að hluta til vegna heimsfaraldursins en hún var þó hafin áður en hann reið yfir,“ segir í umsögninni. Fyrir faraldurinn, á árunum 2017 til 2019 fjölgaði til dæmis störfum í atvinnulífinu um 1 prósent en 8 prósent hjá hinu opinbera.
„Að hluta er starfsemi hins opinbera þess eðlis að hún vex í hlutfalli við fjölgun íbúa en það á alls ekki við um alla þá starfsemi sem hið opinbera sinnir auk þess sem fjölgun stöðugilda hins opinbera hefur verið meira en fólksfjölgunin undanfarin ár.“
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra verður 1689 milljarða króna halli á rekstri ríkissjóðs á næsta ári en á þessu ári er hann áætlaður 288 milljarðar króna. Þetta er þrátt fyrir að afkoma ríkissjóðs batnium 120 milljarða króna milli þessa árs og næsta árs og útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 66 milljörðum hærri árið 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðastliðið vor.
Þá varar Viðskiptaráð við því að opinberir starfsmenn leiði launahækkanir en samkvæmt greiningu ráðsins hækkuðu laun þeirra tvöfalt meira en laun starfsmanna á almennum markaði frá maí 2020 til maí 2021. Frá upphafi faraldursins hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 17 prósent.
„Launaþróun almennt, þar með talið hins opinbera, þarf að vera í samræmi við framleiðnivöxt og verðbólgumarkmið Seðlabankans, en launahækkanir á opinberum markaði eru órafjarri því. Ellegar er hætt við því að mikil verðbólga festist í sessi,“ segir í umsögninni.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.