Erlent

Met­dagur í Dan­mörku og hæsta ný­gengi álfunnar í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. EPA

Síðasta sólarhringinn greindust 7.799 manns með kórónuveiruna í Danmörku og hafa aldrei svo margir greinst með veiruna á einum sólarhring frá upphafi faraldursins.

DR segir frá því að alls hafi verið tekin rúmlega 185 þúsund sýni í gær sem þýðir að 4,2 prósent fengu jákvæða niðurstöðu. 

Inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna COVID-19 í Danmörku fjölgar sömuleiðis um tólf milli daga og eru þeir nú 480. Þá hefur verið tilkynnt um níu dauðsföll til viðbótar vegna kórónuveirunnar.

Í Noregi er sömuleiðis útbreiðsla veirunnar mjög mikil og er nýgengi smita nú 934 og segja fjölmiðlar þar í landi að nýgengi smita í Noregi sé nú það hæsta í álfunni, ef frá eru talin smáríki á borð við San Marínó og Andorra.

Met yfir fjölda smitaðra á einum sólarhring var slegið í Noregi á hverjum virkum degi í síðustu viku og náði hámerki á föstudaginn þegar 5.400 greindust á einum sólarhring.

358 eru nú inniliggjandi á norskum sjúkrahúsum vegna COVID-19, fjölgar um 27 milli daga, og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Norska ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar í kvöld þar sem reiknað er með að tilkynnt verði um hertar samkomutakmarkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×