Handbolti

Stórleikur Bjarka skilaði Lemgo áfram | Þrettán íslensk mörk í öruggum sigri Gummersbach

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson átti sannkallaðan stórleik í sigri Lemgo í kvöld.
Bjarki Már Elísson átti sannkallaðan stórleik í sigri Lemgo í kvöld. Alex Grimm/Getty Images

Það voru Íslendingar í eldlínunni í tveimur leikjum í 16-liða úrslitum þýska bikarsins í handbolta í kvöld. Bjarki Már Elísson skoraði 13 mörk er Lemgo sló Fuchse Berlin út í framlengdum leik og Íslendingalið Gummersbach vann öruggan tólf marka sigur gegn Nordhorn-Lingen.

Leikur Lemgo og Fuchse berlin var nokkuð kaflaskiptur, en gestirnir frá Berlín höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik. Þeir leiddu með þremur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, 12-15.

Bjarki og félagar snéru taflinu hins vega við í seinni hálfleik og þegar lokaflautið gall var staðan jöfn, 25-25.

Því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara. Bjarki Már var algjörlega magnaður í framlengingunni og skoraði fjögur af sjö mörkum Lemgo. Það dugði svo sannarlega til sigurs því Fucshe Berlin skoraði aðeins fjögur mörk í heildina í framlengingunni og niðurstaðan því þriggja marka sigur Lemgo, 32-29.

Allt í allt skoraði Bjarki Már 13 mörk úr 17 skotum, en þar af komu tvö af vítalínunni.

Spennan var heldur minni í viðureign Gummersbach og Nordhorn-Lingen. Íslendingaliðið hafði yfirhöndina allt frá byrjun og vann að lokum öruggan tólf marka sigur, 38-26.

Hákon Daði Styrmisson var markahæsti maður vallarins með sjö mörk, en Óðin Þór Ríkharðsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu þrjú mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×