Erlent

Brexit­mála­ráð­herra segir af sér og staða John­son sögð veik

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
David Frost sá um samningaviðræður Breta við Evrópusambandið þegar leiðir þeirra skildu.
David Frost sá um samningaviðræður Breta við Evrópusambandið þegar leiðir þeirra skildu. Vísir/AP/ Geert Vanden Wijngaert

David Frost Brexitmálaráðherra hefur sagt af sér embætti. Brotthvarf hans úr ríkisstjórn er talið veikja stöðu Borisar Johnson forsætisráðherra enn meira en nokkurrar óánægju hefur gætt með hann innan Íhaldsflokksins upp á síðkastið.

Samkvæmt breskum miðlum sagði Frost af sér fyrir viku síðan en afsögnin komst fyrst í fréttir í dag. The Guardian greinir frá því að Frost og Johnson hafi náð samkomulagi um að hann myndi sitja í embætti út janúarmánuð en nú verði afsögn hans flýtt eftir að málið komst í fréttir.

Frost er sagður bæði ósáttur með gang viðræðna Breta við Evrópusambandið í ýmsum málum, sérstaklega þeim sem snerta Norður-Írland, en einnig með stefnu ríkisstjórnarinnar í sóttvarnaaðgerðum og yfirvofandi skattahækkunum.

Öll spjót beinast nú að forsætisráðherranum en staða hans virðist veikjast meira og meira með hverjum deginum. Í vikunni greiddu hundrað þingmenn úr hans eigin flokki til að mynda gegn stjórnarfrumvarpi um hertar samkomutakmarkanir í landinu. 

Það bætti síðan gráu ofan á svart þegar flokkurinn tapaði aukakosningum fyrir tveimur dögum í kjördæminu Norður Shorpsríki en hann hefur ekki tapað kosningum þar í tvær aldir.

Menn eru nú farnir að velta því upp hvort stjórnartíð Borisar Johnson sé að ljúka.Vísir/Getty/Jeremy Selwyn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×