Fjölnir Geir var vinamargur maður en hann andaðist 11. desember. Húðflúr, eða tattoo, hafa orðið algengari í seinni tíð og þar fór Fjölnir fremstur í flokki. Hann þekkti því fólk af öllum þjóðfélagsstigum og fór ekki í manngreinarálit. Fjölnir var ásatrúar og virkur mótorhjólamaður.

Sem dæmi um viðbúnaðinn vegna útfararinnar má nefna að fangar í fangelsinu að Sogni í Ölfusi hyggjast fjölmenna í skólastofu til að minnast Fjölnis Tatto í gegnum streymið. Þar átti hann nokkra góða vini og kunningja sem vilja minnast hans og kveðja með þessum hætti. En streymið má finna hér:
„Ég fékk leyfi varðstjórans hér til að setja upp stóran skjá og græjur úti í skólastofunni hér og er núna að græja stofuna með stólum og kertum svo hægt sé að hafa smá kveðjustund fyrir hann á morgun,“ segir Andrea Unnarsdóttir í samtali við Vísi.

Hún segist alls ekki hafa átt von á því að fangaverðir þar tækju svona vel í hugmyndina en þeir reyndust ekkert nema hjálplegir og allir af vilja gerðir til að aðstoða Andreu við þetta framtak. Hún segist mjög þakklát.
„Hér eru um 20 fangar og meiriparturinn hefur einhverjar sögur að segja af kallinum. Ég þekkti hann sjálf, hjólaði oft með honum og var mikið gaman að hitta hann á förnum vegi. Hann var alltaf svo hjálplegur þeim sem þurftu og var góður vinur margra. Mikill missir af þessum mikla meistara,“ segir Andrea.

Fjölmargir minnast nú Fjölnis á samfélagsmiðlum, meðal annarra Atli Steinn Guðmundsson blaðamaður sem birtir um hann minningarorð þar sem segir meðal annars: „Fjölnir var stórskemmtilegur maður og viðræðugóður, víðlesinn og margfróður um ótrúlegustu kima mannlegs lífs og dauða.“

