Þrjú félög Gráa hersins höfðuðu mál gegn Tryggingastofnun vegna skerðinga á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðnum. Málið var byggt á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyrisþegar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka. Landssamband eldri borgara telur skerðinguna nema allt að 73 prósentum.
Héraðsdómur féllst á það sjónarmið eldri borgara að ellilífeyrir, sem þeir eigi rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar, njóti verndar eignaákvæðis stjórnarskrárinnar.
Flóki Ásgeirsson, lögmaður Gráa hersins, segir það áfangasigur þrátt fyrir að niðurstaða dómsins hafi verið sýkna.
„Rökstuðningurinn er að reglur sem settar voru af löggjafanum rúmist innan verndarinnar sem eignin nýtur. Þá hafi heldur ekki verið gengið lengra í skerðingunum en nauðsynlegt er og þar með ekki brotið gegn jafnræðisreglunni. En það er stór sigur fyrir eldri borgara að dómurinn hafi fallist á að lífeyrinn nyti verndar eignaákvæðis stjórnarskrárinnar,“ segir Flóki.
Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir í samtali við fréttastofu að niðurstaðan séu vonbrigði.
„Þetta eru auðvitað vonbrigði en það kemur út úr þessu líka að lífeyrisréttindin eru tryggð með eignarétti þannig að það er ekki bara hægt að segja að þetta séu einhverjar bætur sem verið sé að fleygja í fólk. Það er breyting í þessu, veruleg. En það er enn deilt um það hvernig þetta er greitt út miðað við samninga til áratuga sem menn töldu sig vera að gera,“ segir Helgi.
„Það á enn eftir að taka á því. Við munum auðvitað áfrýja á öllum stigum. Það er svo auðvitað hugsun sem læðist að manni að þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir ríkið og þá horfir maður á íslenska dómstóla í kring um það.“