Erlent

Af­lýsa þúsundum flug­ferða yfir há­tíðarnar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ekki er hægt að kenna Trölla sem stal jólunum um raskanir á flugi í þetta skiptið. Myndin er tekin á flugvelli í Denver þar sem flugvallarstarfsmaður gerði tilraun til að létta strandaglópum lundina.
Ekki er hægt að kenna Trölla sem stal jólunum um raskanir á flugi í þetta skiptið. Myndin er tekin á flugvelli í Denver þar sem flugvallarstarfsmaður gerði tilraun til að létta strandaglópum lundina. AP/Zalubowski

Ferðamenn víðsvegar um heiminn eru margir hverjir í vandræðum en yfir 4.500 flugferðum hefur verið aflýst yfir hátíðarnar. Ástæðan er mönnunarvandi vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Flugfélög aflýstu fjölda flugferða á aðfangadag og í dag, jóladag, eftir hraða útbreiðslu ómíkronafbrigðis kórónuveirunnar en illa hefur gengið að manna áhafnir vegna smita. Þá hafa margir starfsmenn þurft að sæta sóttkví og hafa flugfélög því glímt við tilheyrandi mönnunarvanda.

Flugfélög á borð við Delta hafa óskað eftir því að skyldusóttkví fyrir bólusetta starfsmenn verði fækkað úr tíu dögum niður í fimm og önnur flugfélög hafa í kjölfarið óskað eftir sambærilegum undanþágum fyrir starfsmenn sína.

Samkvæmt vefsíðunni FlightAware hafði rúmlega tvö þúsund flugferðum verið aflýst í gær og enn bættist við nú í morgun. Þá hefur einnig verið mikil seinkun á fjölmörgum flugferðum af sömu ástæðu. Þetta kemur fram í frétt Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×