Innlent

Nýtt met: 493 greindust með kórónu­veiruna innan­lands í gær

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikil fjölgun kórónuveirusmita hefur verið undanfarna daga.
Mikil fjölgun kórónuveirusmita hefur verið undanfarna daga. Vísir/Vilhelm

Í gær greindust 522 með Covid-19 hér á landi. Þar af greindust 493 innanlands, sem er hæsti fjöldi innanlandssmita sem greinst hefur á einum degi. Á landamærunum greindust 29 manns.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum sem Almannavarnir sendu á fjölmiðla í dag. Af þeim sem greindust innanlands voru 155 í sóttkví, eða um 31 prósent.

Samkvæmt tölum Almannavarna eru nú 3.188 í einangrun, þar af 822 börn, og 4.035 í sóttkví.

Fjöldi tekinna sýna og önnur nánari tölfræði um framgang faraldursins verða næst uppfærð á mánudaginn og birtast á Covid.is, að því er fram kemur í skeyti Almannavarna.

Á Landspítala liggja nú 11 vegna Covid en níu eru með virkt smit. Fjórir eru á gjörgæslu og þrír eru í öndunarvél. 

Í gær voru þrjár innlagnir en á sama tíma útskrifuðust þrír af Landspítalanum. 57 starfsmenn spítalans eru í einangrun og 35 í sóttkví. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×