Innherji

Ferðaþjónustan geti ekki haldið öllu starfsfólki fram á vor án stuðnings frá ríkinu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þórunn Reynisdóttir segir að árið 2022 líti sæmilega út eins og staðan er í dag en það geti breyst mjög hratt. 
Þórunn Reynisdóttir segir að árið 2022 líti sæmilega út eins og staðan er í dag en það geti breyst mjög hratt.  Aðsend mynd

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofu Íslands, segir að stjórnvöld þurfi að taka ákvörðun sem allra fyrst um hvort þau hyggist styðja við ráðningar svo að fjöldi starfsmanna í ferðaþjónustu endi ekki á atvinnuleysisskrá. Á næstu mánuðum verði ekki nógu mikið að gera til að fyrirtækin geti haldið öllu starfsfólki.

Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2021?

„Hefur verið mjög erfitt í þessu síbreytilega Covid umhverfi. Það hefur verið mjög erfitt að áætla eða plana eitthvað þar sem annað hvort hafa orðið breytingar hjá okkur hér innanlands á reglum eða á þeim áfangastöðum sem við höfum verið með ferðir til.

Mikið um breytingar sem valda því að stöðugt þarf að vera uppfæra og laga. Stuðningur hins opinbera var mjög góður og hjálpað okkur mjög mikið en hefði verið mjög gott að ákvarðanir hefðu verið teknar í tíma þannig að fyrirtækin gætu tekið ákvarðanir í tíma fyrir starfsfólkið sitt.“

Hvað stóð upp úr í rekstrinum?

„Hversu fljót við vorum sem fyrirtæki að aðlaga okkur að þessu breytta umhverfi. Haldið ró okkar og unnið mjög vel miðað við stöðuna hverju sinni.“

Hverjar voru helstu áskoranirnar? 

„Helstu áskoranirnar eru þetta síbreytilega umhverfi okkar varðandi Covid reglur á Íslandi og þeim áfangastöðum sem við erum að selja ferðir til. Þetta nýja umhverfi okkar í ljósi Covid kallar á breytt vinnulag og reglulegar upplýsingar til okkar viðskiptavina um stöðuna hverju sinni á hverjum stað fyrir sig. Flugfélög að breyta stöðugt sínum áætlunum sem kallar á aukið álag.“

Ríkið getur algjörlega sleppt því að fara í eitthvað markaðsátak ef það eru ekki starfsmenn til að sinna þjónustunni né bókunum.

Hvernig lítur næsta ár út frá þínum bæjardyrum séð?

„Það lítur sæmilega út eins og staðan er í dag en getur breyst mjög hratt í báðar áttir. Við verðum að vera bjartsýn á að árið verði gott og við keppumst við að halda hjólunum gangandi þar til þessum faraldri lýkur. Annað er ekki í stöðunni.

Nú þarf ríkisstjórnin að taka ákvörðun sem fyrst með stuðning við ráðningu starfsmanna þar sem fyrirtækin eru í mjög erfiðri stöðu þar sem lítið hafi verið að gera.

Stuðningurinn þarf að vera fram á vorið því ég tel ljóst að það verði ekki nægilega mikið að gera til að geta haldið öllu starfsfólki nema komi til stuðningur frá ríkinu.

Ríkið getur algjörlega sleppt því að fara í eitthvað markaðsátak ef það eru ekki starfsmenn til að sinna þjónustunni né bókunum. Flugfélögin sem hafa ákveðið að fljúga til og frá landinu næsta sumar munu sjá um að kynna landið.

Ríkið þarf að ákveða þetta fljótt svo fjöldi starfsmanna endi ekki á atvinnuleysisskrá sem er engum hollt.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×