Samhliða gífurlegri fjölgun nýsmitaðra í Frakklandi hafa innlagnir þar tvöfaldast á einum mánuði.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að rúmlega einn af hverjum hundrað hafi greinst smitaður af Covid-19 á svæðinu í kringum París á undanfarinni viku.
Flestir nýsmitaðir smitast af ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar og er búist við því að það verði ráðandi í Frakklandi á næstu dögum. Delta-afbrigðið hefur sömuleiðis verið í mikilli dreifingu í Frakklandi og hefur mikið álag á gjörgæslum í landinu um jólin verið rakið til þess.
Undanfarna viku hafa rúmlega þúsund manns dáið vegna veirunnar. Heildardauðsföll vegna Covid-19 í Frakklandi eru rúm 122 þúsund. Útlit er fyrir að ómíkron-afbrigðið valdi mildari einkennum og færri dauðsföllum. Á móti kemur að það virðist smitast auðveldar manna á milli og er líklegra til að komast hjá þeim vörnum sem bóluefni veita gegn smiti. Bóluefni draga áfram úr alvarlegum veikindum.
Ríkisstjórn Emmanuels Macron, forseta, mun halda neyðarfund á morgun til að ræða næstu skref í sóttvörnum í Frakklandi. Menntamálaráðherra landsins hefur þó sagt að ekki standi til að fresta því að opna skóla eftir jólafrí.
Sagt er frá því í frétt France24 að ákvörðun hafi verið tekin um að stytta tímann fyrir aukabólusetningar Frakka. Þeir muni geta fengið aukaskammt eftir þrjá mánuði í stað fimm. Það er vegna þess að aukaskammtur bóluefna er sagður veita töluvert mikla vörn gegn ómíkron í einn til tvo mánuði.
Þá stendur einnig til að fara að gefa táningum sem eru í áhættuhópum aukaskammta.