Upptök skjálftans virðast hafa verið um 3,7 km norður af Krýsuvík. Fjölmargir minni skjálftar hafa orðið síðan á miðnætti, eða alls 1.034. Sá sem reið yfir nú klukkan 8:25 var sá eini sem var yfir 3 að stærð. Samkvæmt jarðskjálftatöflu Veðurstofunnar var skjálftinn 3,6 að stærð.
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga undanfarna sólarhringa en ekkert sést enn til hraunkviku í Fagradalsfjalli. Ekkert hraun hefur runnið úr fjallinu síðan 18. september. Þó er útlit fyrir að kvika sé að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið.
Lesendur Vísis um allt höfuðborgarsvæðið segjast hafa fundið vel fyrir skjálftanum, í Kópavogi, Hafnarfirði, Breiðholti og bæði í austur- og vesturhluta borgarinnar.
Fréttin var uppfærð klukkan 8:50.