Í dag var tilkynnt að æfingamóti í Sviss hefði verið aflýst. Á mótinu átti Portúgal að mæta heimamönnum, Svartfjallalandi og Úkraínu um komandi helgi.
Á heimasíðu mótsins segir að vegna smita í liðum Portúgals og Svartfjallalands sé ekki annað hægt en að fresta mótinu fram á næsta ár.
Samkvæmt nýjustu fréttum eru reglur EHF á þá leið að leikmenn þurfi að bíða í 14 daga eftir að smit greinist, þar til að þeir mega spila á EM. Það þýðir að leikmaður sem greinist smitaður í dag missir af leikjunum þremur í riðlakeppninni.
Enn stendur til að Ísland leiki vináttulandsleiki í aðdraganda þess að liðið mætir Portúgal 14. janúar í Búdapest. Litháar eru væntanlegir til landsins og leika liðin tvo leiki á Ásvöllum, á föstudag og sunnudag.
Þrír leikmenn greindust smitaðir í íslenska landsliðshópnum undir lok síðasta árs, áður en hópurinn kom saman til æfinga 2. janúar. Enginn þeirra kom þó smitaður til móts við hópinn, sem verður í búblu hér á landi þar til að haldið verður á EM.
Þegar æfingar hófust voru 17 af 20 leikmönnum með eftir að hafa allir reynst með neikvæð sýni við fyrstu PCR-próf. Tveir leikmenn voru þá í sóttkví og einn í einangrun, en áttu að geta komið inn í búbluna í miðri viku.
Eins og fyrr segir er fyrsti leikur Íslands á EM gegn Portúgal 14. janúar en liðið mætir svo Hollandi 16. janúar og heimamönnum í Ungverjalandi 18. janúar. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðla.