Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO), segir nýja afbrigði kórónuveirunnar lama heilbrigðiskerfi víðsvegar í heiminum, enda sé það bráðsmitandi. Bólusetning skipti lykilmáli.
„Þrátt fyrir að ómíkron-afbrigðið virðist vægara en til dæmis delta-afbrigði kórónuveirunnar, og þá sérstaklega hjá bólusettum, á ekki að halda því fram að afbrigðið sé vægt sem slíkt. Fjölmargir hafa þurft á spítalainnlögn að halda vegna afbrigðisins og einhverjir hafa dáið,“ segir Tedros hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.
Ástandið er slæmt víða um heim en stjórnvöld í Bretlandi hafa meðal annars lýst yfir neyðarástandi vegna manneklu og hraðrar útbreiðslu kórónuveirunnar. Tæplega 180 þúsund manns smituðust í Bretlandi í dag og 231 létust af völdum veirunnar. Breska ríkisútvarpið greinir frá.