Sex ára gömul stúlka, Klara að nafni, slasaðist alvarlega þann 1. júlí síðastliðinn þegar hoppukastali sem staðsettur var við skautahöllina á Akureyri tókst á loft.
Aðstandendur Klöru hafa nú hafið söfnun til styrktar Klöru og fjölskyldu hennar.
„Við ætlum að sýna stuðning okkar í verki með því að taka þátt og styðja við móðir Klöru sem hefur fundið styrkinn í því að fara út og hreyfa sig og vera út í náttúrunni, sagði Ásthildur Björnsdóttir,“ frænka Klöru í Reykjavík síðdegis í gær.
Þannig hefur móðir Klöru og stór hópur fólks skráð sig í Landvætt á þessu ári, ýmist heilan eða hálfan, er það fjölþraut þar sem leysa þarf að hendi ákveðin krefjandi útivistarverkefni í hverjum landsfjórðungi.
Hópurinn kemur til með að safna áheitum fyrir hverja þraut og mun sú fjárhæð sem safnast renna til Klöru og fjölskyldu hennar, til að aðstoða við endurhæfingaferlið og það fjárhagstjón sem fjölskyldan hefur orðið fyrir.
Stofnuð hefur verið Facebook-síða þar sem hægt verður að fylgjast með undirbúningi hópsins fyrir hverja áskorun, en á sama tíma er Klara í stífri endurhæfingu eftir slysið.
„Endurhæfingin er enn í gangi og gengur vel en við náttúrulega vitum það að hún mun taka langan tíma. Eins og við höfum talað um áður, framtíðin er bara dálítið óskrifuð,“ sagði Ásthildur.
Nálgast má Facebook-síðuna til stuðnings Klöru hér, auk þess sem að upplýsingar um styrktarreikninginn má nálgast hér að neðan.
Styrktarreikningur Klöru
Kennitala: 081114-2500
Reikningsnúmer: 0123-15-043225