Fótbolti

Fyrrum leikmaður Newcastle sagður ljúga til um aldur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chancel Mbemba fær ekki nýjan samning hjá Porto þar sem hann er talinn ljúga til um aldur.
Chancel Mbemba fær ekki nýjan samning hjá Porto þar sem hann er talinn ljúga til um aldur. Serena Taylor/Newcastle United via Getty Images

Chancel Mbemba, fyrrum leikmaður Newcastle og núverandi leikmaður Porto, er sagður hafa logið til um aldur. Mbemba hafði farið í aldursgreiningu til að sanna að hann sé fæddur árið 1994, en hefur nú sagt vinum sínum frá því að hann sé fæddur árið 1990.

Þetta herma heimildir portúgalska miðilsins Corriero de Manha. Reynist þetta rétt er þessi 27 ára varnarmaður í raun 31 árs.

Að þessum sökum ætlar Porto ekki að framlengja samningi Mbemba við félagið, en núgildandi samningur leikmannsins rennur út í sumar.

Mbamba gekk í raðir Newcastle árið 2015 og þá leiddi aldursgreining í ljós að leikmaðurinn væri fæddur árið 1994, eins og hann hefur haldið fram síðan.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aldur varnarmannsins hefur verið dreginn í efa, en rannsókn frá árinu 2013 leiddi í ljós fjóra mismunandi fæðingadaga. Einn þeirra var dagsettur í ágúst 1988, sem myndi þýða að leikmaðurinn væri í raun 33 ára.

Talið er að Mbemba hafi fyrst logið til um aldur sinn árið 2012 þegar hann gekk til liðs við belgíska liðið Anderlecht frá heimalandi sínu, Kongó.

Í rannsókninni sem framkvæmd var árið 2013 sagði knattspyrnusamband Kongó frá því að fæðingarári leikmannsins hafi verið breytt í 1991 svo að varnarmaðurinn gæti tekið þátt á Ólympíuleikunum 2012 þar sem að lið mega nánast eingöngu stilla upp leikmönnum sem eru 23 ára og yngri.

Niðurstöður rannsóknarinnar urðu til þess að Mbemba neyddist til að gangast undir líkamleg próf til að sanna aldur sinn.

„Ég fór í aldursgreiningu og eins og ég og vinir mínir vitum allir þá sanna niðurstöðurnar hvað ég er gamall,“ sagði Mbemba í samtali við The Mirror árið 2015.

„Ég mæti bara og spila fótbolta, ég er ekki að gefa upp neinar rangar upplýsingar. Fólk hefur sagt ýmislegt um fæðingarár mitt og annað í kringum það. Ég sýndi nákvæmlega hver sannleikurinn er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×