Innlent

Fimm „vel hæfir“ um­sækj­endur verið teknir í við­töl í ráðu­neytinu

Atli Ísleifsson skrifar
Alls sóttu fjórtán um stöðu embættis forstjóra Landspítala þegar staðan var auglýst laus til umsóknar í haust.
Alls sóttu fjórtán um stöðu embættis forstjóra Landspítala þegar staðan var auglýst laus til umsóknar í haust. Vísir/Vilhelm

Fimm umsækjendur um stöðu forstjóra Landspítala, sem taldir eru „vel hæfir“ af hæfnisnefnd, hafa verið teknir í viðtöl í heilbrigðisráðuneytinu. Ekki er útilokað að fleiri viðtöl verði tekin svo ráðningarferlinu er ekki lokið.

Þetta kemur fram í svari frá Millu Ósk Magnúsdóttur, aðstoðarmanni Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn fréttastofu. Alls sóttu fjórtán um stöðuna þegar hún var auglýst laus til umsóknar í haust, en heilbrigðisráðherra skipar í embættið til fimm ára frá 1. mars næstkomandi.

Í svarinu kemur fram að niðurstaða lögbundinnar hæfnisnefndar, sem lagði mat á umsækjendur hafi falið í sér að af fjórtán umsækjendum hafi þrettán verið metnir hæfir og boðaðir í viðtöl til nefndarinnar.

„Tólf þeirra mættu í viðtöl og voru 5 þeirra metnir vel hæfir og 7 hæfir. Tekin hafa verið viðtöl einu sinni við hvern þeirra 5 sem metnir voru vel hæfir. Ekki er útilokað að fleiri viðtöl verði tekin svo ferlinu er ekki lokið. Ráðuneytið mun birta tilkynningu um skipun nýs forstjóra um leið og ákvörðun liggur fyrir,“ segir í svarinu.

Páll Matthíasson lét af embætti forstjóra í haust og var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, sem hafði verið framkvæmdastjóri meðferðarsviðs spítalans, þá settur forstjóri. Páll hefur aftur tekið til starfa sem geðlæknir en hann hafði starfað sem forstjóri í átta ár.

Þau sem sóttu um embætti forstjóra voru:

  • Björn Óli Ö Hauksson, verkfræðingur
  • Elísa Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur
  • Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri
  • Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðsskrifstofu
  • Hákon Hákonarson, læknir
  • Jan Triebel, læknir
  • Jón Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga
  • Kristinn V Blöndal, ráðgjafi
  • Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri
  • Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga
  • Reynir Arngrímsson, læknir og prófessor
  • Runólfur Pálsson, starfandi framkvæmdastjóri meðferðarsviðs
  • Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
  • Sigurður Erlingsson, viðskiptafræðingur

Tengdar fréttir

Páll hættir sem forstjóri Landspítalans

Páll Matthíasson mun hætta sem forstjóri Landspítalans þann 11. október. Hann hyggst snúa aftur til starfa sem geðlæknir og telur tímabært að skipta um leiðtoga eftir átta ár í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×