Skoðun

Þúsundir í einangrun með óvirkt smit?

Bergþór Ólason skrifar

Ég spurði heilbrigðisráðherra á Alþingi fyrir fimm dögum hvers vegna staðið væri að skimunum á landamærum og innanlands með mismunandi hætti. Það er nefnilega þannig að við skimun á landamærum er skoðað hvort um óvirkt smit sé að ræða þegar viðkomandi greinist smitaður af Covid-19 en hið sama er ekki gert innanlands þegar viðkomandi greinist smitaður af Covid-19. Óvirkt smit þýðir að smitið er gamalt og viðkomandi er löngu hættur að smita aðra.

Þannig fara aðeins þeir sem greinast með virkt smit af landamærunum í einangrun en enginn slíkur greinarmunur er gerður á þeim sem greinast smitaðir við skimun innanlands. Það má því ætla að fjöldi manns sé læstur í einangrun í dag eða hafi áður sætt einangrun að ósekju. Hefðu getað verið frjálsir ferða sinna, sinnt sinni vinnu og lausir undan áþján stofufangelsis.

En heilbrigðisráðherra hefur ekki haft áhuga á að kanna þetta nánar. Hvorki var hann meðvitaður um þessa mismunandi nálgun varðandi skimanir á landamærum og innanlands þegar ég spurði hann í síðustu viku, né hafði hann haft fyrir að kanna málið nánar á þeim fimm dögum sem liðnir eru. Það kom í ljós þegar ég innti hann eftir þessu aftur á Alþingi fyrr í dag.

Þetta er ótrúlegt í ljósi þess að tölur benda til þess að þetta eigi við um fjórðung þeirra sem greinst hafa á landamærunum, aðrar tölur benda til að innanlands gæti þetta hlutfall verið nær þriðjungi. Semsagt 25-33% þeirra sem greinst hafa innanlands gætu hafa flokkast með óvirkt smit og smita því ekki aðra og því engin þörf á einangrun.

Þetta verður enn ótrúlegra eftir að heyra að heilbrigðisráðherra hafi ekki einu sinni haft fyrir því að láta kanna þetta innan síns ráðuneytis eftir að undirritaður benti honum á þetta í umræðum á þingi í síðustu viku þegar í dag eru 11.639 manns í einangrun á Íslandi. Það má því reikna með að 2.900 til 3.800 einstaklingar séu nú í einangrun að óþörfu. Að óþörfu. Er þá ekki horft til alls þess fjölda fólks sem sætt hefur einangrun að óþörfu fram til þessa á sömu rökum.

Ef við þrengjum sjónarhornið hvað þetta varðar og skoðum bara stöðuna á Landspítalanum þá kom fram í máli ráðherrans að hátt í 200 starfsmenn Landspítalans væru í einangrun og því samsvarandi aukið álag á spítalann og alla hans starfsemi.

Það er því í hæsta máta ótrúlegt að á meðan Landspítalinn er á neyðarstigi, vegna mönnunarvanda, að ráðherrann sjái sér ekki fært að skoða hvort smit einhverra þessara 200 séu óvirk. Ef hlutfallið sem birtist við landamæri er heimfært yfir á þennan fjölda starfsmanna spítalans í einangrun mætti ætla að 50-70 manns gætu losnað strax úr einangrun og hafið störf á nýju - enda ekki að smita sálu.

En nei. Ráðherrann heldur uppteknum hætti. Áfram skulu þúsundir landsmanna sitja að ósekju í stofufangelsi og áfram er spítalinn í mönnunarvanda. Gott samt að ráðherrann hafi nýtt helgina í að skrifa grein með starfsmanni sínum og boði í félagi við þennan starfsmann sinn ,,áætlun um afléttingu takmarkana” í samfélaginu. Í stað þess að bara taka ákvörðunina og létta mestu frelsisskerðingum seinni tíma af Íslendingum í ljósi þess að faraldur Covid-19 er nú álitinn af sérfræðingum engu hættulegri en hefðbundinn inflúensufaraldur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×