Skýrslu Gray hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en niðurstaða hennar er sögð munu hafa úrslitaáhrif á það hvort samflokksmenn Boris Johnson leggja fram vantraustsyfirlýsingu honum til höfuðs.
Nokkur óvissa ríkir þó um áhrifamátt skýrslunnar, þar sem lögregluyfirvöld tilkynntu á dögunum að þau hygðust einnig rannsaka meint sóttvarnabrot í Downing-stræti og beindu þeim fyrirmælum til Gray að ritskoða skýrslu sína og taka úr henni ýmis atriði sem gætu að óbreyttu haft áhrif á lögreglurannsóknina.
Breskir miðlar segja þá staðreynd að Gray hafi talað um skýrsluna sem afhent var forsætisráðherra sem „stöðuuppfærslu“ til marks um það að plaggið sé langt í frá endanleg útgáfa skýrslunnar.
Menn velta því nú fyrir sér hvort skýrslan í heild muni yfirhöfuð líta dagsins ljós eða hvort henni verði stungið ofan í skúffu þegar hún liggur fyrir. Talsmaður Johnson segir að útgáfan sem ráðherra fékk í dag verði birt en hefur ekki viljað tjá sig um birtingu lokaútgáfunnar.
Inngrip lögreglu í hina pólitísku atburðarás hefur bæði verið sögð bölvun og blessun fyrir forsætisráðherrann. Á annan bóginn vildi hann gjarnan ljúka málinu en á hinn bóginn hafi þeim uppljóstrunum sem gagnrýnendur hans hafa beðið eftir verið slegið á frest, sem gefi Johsnson tíma til að beina athygli almennings að öðru.