Hinn annars ágæti leikmaður Halldór Garðar átti sérstaklega slæman kafla í fjórða leikhluta þegar ÍR-ingar lögðu grunninn að 94-77 sigri sínum.
„Þetta voru líklega verstu níutíu sekúndur sem sést hafa í efstu deild karla. Ég ætla ekkert að skafa af því. Þetta var agalegt,“ sagði Tómas Steindórsson í Subway Körfuboltakvöldi.
Halldór tapaði nefnilega á þessum tíma boltanum tvisvar með misheppnuðum sendingum, fékk tvisvar dæmda á sig sóknarvillu fyrir ólöglega hindrun, og tvær varnarvillur, eins og sjá má í klippunni hér að neðan.
„Þetta fór dálítið með leikinn. Það var bara 71-74 þegar þetta byrjaði en svo var þetta komið í tíu stig á þessum tveimur mínútum,“ sagði Tómas.
„Þarna fékk líka bekkurinn hjá Keflavík tæknivillu og það varð eitthvað upplausnarástand,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, og Teitur Örlygsson tók í sama streng:
„Þeir létu allt fara í taugarnar á sér. Það var ekkert út á dómarana að setja í þessum leik og Hjalti talaði einmitt um það. Menn flýja oft þangað, að kenna einhverjum öðrum um, þegar það gengur illa. Það er bara eitthvað í okkar eðli,“ sagði Teitur.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.