Fótbolti

Bumbulið fékk „draumafélagaskipti“ og Roberto Carlos leikur með liðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto Carlos er kannski kominn af sínu léttasta skeiði en líklega kann hann þó enn að sparka í bolta.
Roberto Carlos er kannski kominn af sínu léttasta skeiði en líklega kann hann þó enn að sparka í bolta. Alex Livesey/Getty Images

Roberto Carlos, fyrrum vinstri bakvörður brasilíska landsliðsins í fótbolta, mun leika einn leik með bumbuliði á Englandi eftir að liðið tók þátt í happdrætti á eBay.

Liðsmenn The Bull In The Barne vöknuðu við góðar fréttir á laugardaginn þegar þeir fréttu að þeir hefðu unnið í happdrætti á eBay. Vinningurinn var ekki af verri gerðinni, en Roberto Carlos, vinstri bakvörður heimsmeistaraliðs Brasilíu frá 2002, mun leika einn leik með liðinu í þessum mánuði.

Vinningurinn felur í sér að Carlos komi inn af bekknum í einum leik liðsins í Shrewsbury & District deildinni í febrúarmánuði. Carlos er orðinn 48 ára, en ekki er ólíklegt að hann sé þó enn nokkrum gæðaflokkum fyrir ofan leikmenn deildarinnar.

Matthew Brown, framherji og ritari The Bull In The Barne, segist alls ekki hafa trúað því að fyrrum bakvörður Real Madrid og brasilíska landsliðsins væri að fara að spila með honum.

„Þú borgar fimm pund til að taka þátt í happdrættinu og átt þá möguleika á að vinna það að atvinnumaður spili fyrir liðið þitt. Einn af strákunum spurði hvort að við ættum ekki bara að láta vaða og svo unnum við þetta bara,“ sagði Brown í samtali við BBC.

„Á föstudaginn sendi þjálfarinn okkar, Ed Speller, okkur skilaboð til að láta okkur vita að við hefðum unnið. Enginn okkar trúði honum. Við héldum að hann væri að fíflast.“

„Ég fór út á lífið á föstudagskvöldið og þegar ég vaknaði með smá hausverk á laugardaginn var ég með nokkur skilaboð í símanum þar sem fólk var að spurja hvort þetta væri satt með Roberto Carlos. Á þeim tímpunkti hugsaði ég: „Þetta getur ekki verið að gerast. Þetta er bara draumur.““

Roberto Carlos lék stærstan hluta ferils síns með Real Madrid. Þar lék hann 370 deildarleiki og skoraði í þeim 47 mörk sem verður að teljast nokkuð gott fyrir bakvörð. Á tíma sínum hjá Real Madrid vann hann spænsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeild Evrópu þrisvar.

Þá lék hann einnig 125 leiki fyrir brasilíska landsliðið þar sem hann hjálpaði liðinu að vinna Copa America tvisvar ásamt því að verða heimsmeistari árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×