„Við vorum algjörir aumingjar í fyrri hálfleik ef ég á að tala hreina íslensku. Við vorum ekki tilbúin í þennan slag, Margrét Einarsdóttir stóð sig vel í markinu og dró tennurnar úr okkur,“ sagði Halldór Harri, og bætti við að HK yrði bara að gera betur.
HK átti í miklum vandræðum með að leysa vörn Hauka og skoruðu gestirnir aðeins fimm mörk úr opnum leik á löngum kafla í fyrri hálfleik.
„Við fórum afar illa með færin okkar í fyrri hálfleik, við vorum of bráðar og gerðum ekki það sem við lögðum upp með sem er okkur öllum að kenna. Það virkaði ekki mikið í þessum leik.“
HK spilaði töluvert betur í síðari hálfleik en Harri gaf þó lítið fyrir það.
„Þetta var aðeins betra í síðari hálfleik en samt gerðum við of mikið af tæknifeilum og klikkuðum á dauðafærum. Við náðum að saxa forskot Hauka niður í fjögur mörk en það var of seint því við hentum leiknum frá okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Halldór Harri svekktur að lokum.