Þetta segir Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála.
Þar ræða þeir Konráð og Þórður Gunnarsson hagfræðingur um stöðu mála í hagkerfinu, nýlega vaxtahækkun Seðlabankans og áhrif hennar sem og stuðningsaðgerðir hins opinbera í faraldrinum og hvaða áhrif það mun hafa þegar af þeim verður látið.
Konráð vekur máls á því að söluframboð á fasteignamarkaði sé takmarkað og fátt bendi til þess að markaðurinn muni hægja á sér í bili. Þá hafi fyrirtækin í verslun og þjónustu boðað verðhækkanir, sem að hluta til eru komnar erlendis frá, en allt muni þetta hafa áhrif á verðbólguþrýsting hér á landi.
Þetta er að vissu leyti afleiðing af því lúxusvandamáli að við komum betur út úr þessu en við óttuðumst.
Aðspurður um það hvort og hvenær stýrivextir Seðlabankans fari að bíta af alvöru og hafa áhrif segir Konráð að samkvæmt mati Seðlabankans – og samkvæmt almennum hagfræðireglum – byrji þeir ekki að bíta fyrr en nokkrum mánuðum eftir vaxtahækkanir.
„Þeir eru jafnvel að koma fram á tveimur árum, og það er kannski þess vegna sem ég held að Seðlabankinn hljóti aðeins að naga sig í handabökin að hafa lækkað vexti svona mikið,“ segir Konráð.
Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður hlaðvarpsins, rifjar þá upp að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi ekki brugðist vel við þeirri gagnrýni á fundi bankans þegar stýrivextir voru hækkaðir í liðinni viku.
„Þá komum við að hinum þættinum, að ástæðan fyrir því að þau lækkuðu vexti svona mikið var sú að við bjuggumst öll við því að þessi kreppa yrði verri,“ segir Konráð.
„Þetta er að vissu leyti afleiðing af því lúxusvandamáli að við komum betur út úr þessu en við óttuðumst. Að því leytinu til er þetta skiljanlegt hjá Seðlabankanum en ég held að hann sé í nokkuð þröngri stöðu. Skilaboðin í yfirlýsingu og á fundi bankans voru þess eðlis að þau voru tvístígandi með það hvort þau myndu fara í mikið meiri vaxtahækkanir, allavega í bili.“
Þórður, sem gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavik, tekur undir þessa gagnrýni og bendir á að þeir aðilar sem hvað helst hafa kvartað undan vaxtahækkunum Seðlabankans séu aðilar vinnumarkaðarins, en þeir hafi þó öll spil á hendi sér við frekari þróun í hagkerfinu þar sem framundan eru viðræður um gerð nýrra kjarasamninga.
Hann segir segir hins vegar einnig að Seðlabankinn sé í þröngri stöðu. Raunvextir séu enn neikvæðir og það eigi eftir að koma í ljós hvort og þá hversu mikið bankinn mun hækka stýrivexti sína á árinu eða hvort hann muni beita öðrum aðferðum til að tempra verðbólguvæntingar.
Í þættinum er einnig fjallað um rekstur Reykjavíkurborgar og það hvaða efnahagslegu áhrif það hefur ef skipulagsmál eru í ólestri, hvaða þróun mun eiga sér stað í atvinnumálum höfuðborgarsvæðisins og margt fleira.