Fótbolti

Grunur um að Benfica hafi mútað dómara

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Paixao dæmir hér leik Benfica gegn Belenenses í janúar 2018.
Bruno Paixao dæmir hér leik Benfica gegn Belenenses í janúar 2018. Getty/Carlos Costa

Portúgalska knattspyrnustórveldið Benfica liggur undir grun um að hafa mútað dómara með háum fjárhæðum til að hafa áhrif á úrslit leikja, samkvæmt portúgölskum miðlum. Félagið sver af sér sök.

CMTV greindi frá því að grunur léki á að Benfica hefði greitt Bruno Paixao, fyrrverandi knattspyrnudómara, alls 1,9 milljón evra eða jafnvirði 270 milljóna króna, til að hann dæmdi liðinu í hag í gegnum árin.

Samkvæmt Record kannar lögreglan hvort að fyrirtæki í eigu Paixao hafi fengið milljónirnar inn á sinn reikning fyrir ráðgjafaþjónustu sem aldrei hafi verið veitt.

Paixao heldur því hins vegar fram að fyrirtæki hans hafi einfaldlega fengið greitt fyrir þjónustu sem hafi verið innt af hendi.

Ef í ljós kemur að Paixao hafi þegið greiðslur til að hafa áhrif á úrslit leikja gæti svo farið að Benfica verði dæmt niður um deild.

Paixao starfaði sem dómari til ársins 2018 og dæmdi meðal annars leiki í alþjóðlegum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×