Fótbolti

Viðar Ari til sögufrægs félags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar Ari Jónsson í landsleik Íslands og Síle 2017.
Viðar Ari Jónsson í landsleik Íslands og Síle 2017. vísir/getty

Viðar Ari Jónsson er genginn til liðs við Honvéd í Ungverjalandi frá norska liðinu Sandefjord. Hann kemur til Honvéd á frjálsri sölu og skrifaði undir eins og hálfs árs samning við félagið.

Honvéd er sögufrægt félag sem hefur fjórtán sinnum orðið ungverskur meistari, síðast 2017. Blómaskeið félagsins var á 6. áratug síðustu aldar. Þá var Honvéd lið ungverska hersins og uppistaðan í því voru leikmenn á borð við Ferenc Puskás, Sándor Kocsis og Zoltán Czibor. Þeir voru einnig í aðalhlutverki í ógnarsterku ungversku landsliði sem varð Ólympíumeistari 1952 og lenti í 2. sæti á HM 1954.

Honvéd er í 8. sæti ungversku úrvalsdeildarinnar með 23 stig eftir tuttugu umferðir. Á síðasta tímabili endaði Honvéd í 10. sæti af tólf liðum.

Viðar Ari, sem er 27 ára, átti stórgott tímabil með Sandefjord í fyrra. Þar skoraði hann ellefu mörk og var fimmti markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.

Viðar Ari er uppalinn hjá Fjölni en fór til Brann 2017. Hann var lánaður til FH 2018 og fór svo til Sandefjord árið eftir. Hann hefur leikið sjö A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×