Handbolti

Bjarni með stjörnur í augunum er hann fylgdist með einvígi Óðins og Dags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson og Dagur Gautason voru með sömu tölfræði í leik KA og Stjörnunnar.
Óðinn Þór Ríkharðsson og Dagur Gautason voru með sömu tölfræði í leik KA og Stjörnunnar. stöð 2 sport

Bjarni Fritzson skemmti sér vel við að horfa á hornamennina frábæru Óðin Þór Ríkharðsson og Dag Gautason leika listir sínar í viðureign KA og Stjörnunnar í Olís-deild karla á sunnudaginn.

Óðinn og Dagur fóru báðir mikinn í leiknum sem KA vann, 25-24. Þeir skoruðu báðir átta mörk úr tíu skotum. Sem gamall hornamaður horfði Bjarni með stjörnur í augunum á þá Óðin og Dag sýna sínar bestu hliðar í KA-heimilinu.

„Þetta eru bara svo sexí leikmenn ef ég má nota það orð. Þeir eru svo teknískir, fljótir og spila af svo mikilli ástríðu. Þetta eru leikmenn sem mjög auðvelt er að halda með og líka vel við. Þetta eru gaurar sem geta alltaf tekið upp á einhverju óvæntu,“ sagði Bjarni. 

„Þeir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og báðir alveg sjúklega markagráðugir. Ég er á þeirri línu að menn eigi að vilja skora.“

Klippa: Seinni bylgjan - Einvígi Óðins og Dags

Stefán Árni Pálsson spurði Rúnar Sigtryggsson hvort Óðinn og Dagur væru bestu hornamenn Olís-deildarinnar?

„Það eru margir góðir en þeir standa kannski fremst í þessari umferð. Þeir eru gíraðir fram á við og oft horfnir áður en vörnin er búinn,“ sagði Rúnar og Bjarni bætti því við að það væri góður eiginleiki hjá hornamönnum, að vilja vera fyrstir fram völlinn. „Dagur finnst mér frekar sterkur varnarmaður en Óðinn er bara skorari,“ sagði Bjarni.

Rúnar kveðst mjög hrifinn af Degi en segir að það hann þurfi að bæta sig í einum þætti leiksins til að komast í fremstu röð.

„Viðhorfið og áræðnin og hvernig hann kemur í alla leiki, mér finnst það allt frábært. Eina sem mér finnst vanta til að komast á alþjóðlega sviðið er smá skottækni. Við höfum séð þegar hann lendir gegn markvörðum sem standa vel á hann lendir hann í vandræðum. Hann er ekki með snúningana, þetta er meira allt á kraftinum,“ sagði Rúnar.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×