Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi segir að snjóflóðið hafi falli rétt fyrir klukkan tvö í dag. Tíu ára drengur hafi grafist undir því en fjórtán ára bróðir hans hafi sýnt snarræði og hárrétt viðbrögð. Hann hafi fundið bróður sinn, grafið frá andliti hans og hringt í Neyðarlínuna.
Þá segir að Hjálparsveit Skáta í Hveragerði hafi verið kölluð til og meðlimir hennar hafi bjargað drengnum og komið honum í sjúkrabíl.
Foreldrar drengsins segja líðan hans vera eftir atvikum góða.
„Lögregla og Slysavarnarfélagið Landsbjörg vill beina þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð við Hamarinn í Hveragerði eða við hlíðar hans. Veðuraðstæður hafa skapað fjölda snjóhengja sem hætta er á að geti fallið,“ segir í tilkynningunni.