Lagið taka samtalið er það fyrsta sem heyrist frá hljómsveitinni síðan hún gaf út sína fyrstu plötu 11. september á síðasta ári, plötuna tveir dagar, sem hefur vakið þó nokkra athygli að undanförnu. Platan hefur meðal annars fengið jákvæðar umfjallanir hjá DIY Magazine, The Line of Best Fit og víðar.
Meðlimir hljómsveitarinnar Supersport! eru þau Bjarni Daníel Þorvaldsson, Þóra Birgit Bernódusdóttir, Hugi Kjartansson og Dagur Reykdal Halldórsson.
„taka samtalið fjallar um mikilvægi þess að eiga opin samskipti í nánum samböndum, hvort sem þau eru rómantísk eða platónsk. Lagið var tekið upp og hljóðblandað af hljómsveitarmeðlimunum sjálfum á meðan þau voru í einangrun fyrr í mánuðinum og er allt tekið upp á hljóðnema á snjallsímum,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

Lagið var frumflutt í Vikunni hjá Gísla Marteini síðasta föstudag og má heyra það í spilaranum hér fyrir neðan og á öllum helstu streymisveitum.