New York borg er að íhuga það að aflétta bólusetningarskyldu sinni í næsta mánuði sem hefði það í för með sér að Kyrie Irving mætti þá spila heimaleikina með Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta.
Steve Nash, þjálfari Brooklyn Nets, ræddi við blaðamenn um þær væntingar að menn hjá Nets liðinu séu farnir að búast við því að Irving fái loksins grænt ljós.
NYC Mayor Eric Adams hints that vaccine mandates are changing, allowing Kyrie Irving to play home games
— Complex Sports (@ComplexSports) February 23, 2022
MORE: https://t.co/URSrjEvJaa
Irving vildi ekki láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni og mátti því ekki spila heimaleiki liðsins. Hann hefur aftur á móti spilað alla útileikina.
Eric Adams, borgarstjóri New York, gaf það út í gær að hann væri bjartsýnn á að aflétta banninu einhvern tímann en margar borgir í Bandaríkjunum eru farnar að aflétta flestum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins.
Nash segir að Kyrie Irving sé spenntur fyrir því að fá loksins að spila með liðinu í New York City.
„Ég get sagt það að hann er mjög einbeittur. Kyrie hefur verið frábær á æfingunum og hann hefur verið frábær á vídeófundunum. Hann hefur verið að ræða atriði tengdum leik liðsins. Ég finn því fyrir miklum fókus og áhuga hjá honum,“ sagði Steve Nash.
Kyrie Irving sends a warning to the rest of the league pic.twitter.com/CmZd6ivdd1
— Nets Nation (@NetsNationCP) February 22, 2022
„Ef það er eitthvað merki um það sem koma skal þá myndi ég segja að hann væri spenntur fyrir möguleikanum að fá að spila í öllum okkar leikjum,“ sagði Nash.
Kyrie Irving hefur bara spilað fjórtán leiki á tímabilinu en er með 24,1 stig og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Nets-liðið hefur aftur á móti tapað tíu af þessum fjórtán leikjum en liðið hefur verið lengi án Kevin Durant sem er að glíma við meiðsli.