Hæstiréttur vísaði til þess að meginágreiningur Icelandair og varnaraðila lyti að því hvort Ólöf Helga hefði átt að njóta verndar sem trúnaðarmaður við uppsögn. Hæstiréttur taldi ágreininginn ótvírætt falla undir lögsögu Félagsdóms og hafnaði því kröfu Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair.

Ólöf Helga hafði gegnt embætti trúnaðarmanns hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli frá árinu 2018 og tilnefnd sem trúnaðarmaður Eflingar stéttarfélags frá mars 2018 til marsmánaðar 2020. Í febrúar 2020 mun Flugfélag Íslands hafa sent tilkynningu um skipan öryggisnefndar sinnar til Vinnueftirlitsins og átti Ólöf Helga sæti í henni sem öryggistrúnaðarmaður. Icelandair svo tók yfir ráðningarsamning hennar á vormánuðum 2020, en með bréfi 20. ágúst 2021 sagði Icelandair henni upp störfum frá og með 31. sama mánaðar.
Laut ágreiningur málsins meðal annars að því hvort Ólöf Helga hefði haldið stöðu sinni sem öryggistrúnaðarmaður við sameiningu Flugfélags Íslands ehf. og Icelandair.
Sóknaraðilinn í málinu krafðist þess fyrir Hæstarétti að úrskurður Félagsdóms yrði felldur úr gildi og kröfunni yrði vísað frá Félagsdómi. ASÍ krafðist hins vegar staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Líkt og áður sagði taldi Hæstiréttur ágreininginn ótvírætt falla undir lögsögu Félagsdóms og hafnaði því kröfu sóknaraðilanna. Sóknaraðilum var gert að greiða kærumálskostnað, alls hálfa milljón króna.