Á árinu 2021 hóf fjármálaeftirlitið rannsókn á 24 málum sem komu upp á verðbréfamarkaði, þar af byggðust 15 á ábendingum frá Kauphöll Íslands. Málum fækkaði milli ára en árið 2020 voru 32 mál tekin til rannsóknar hjá eftirlitinu.
„Líkt og fyrri ár vörðuðu flest málanna meint innherjasvik og upplýsingaskyldu útgefenda,“ segir í ritinu þar sem fjallað er um helstu verkefni stofnunarinnar á síðasta ári.
„Af þeim málum sem tekin voru til rannsóknar var 16 lokið á árinu 2021 og líkt og fyrri ár lauk flestum málum án niðurstöðu um brot eða í 12 tilvikum. Þremur málum lauk með athugasemd og einu með kæru til lögreglu vegna meintrar markaðsmisnotkunar.“
Fjármálaeftirlitið segir ritinu að markmið eftirlits á verðbréfamarkaði sé að stuðla að því að markaðurinn sé skilvirkur og öruggur. Það sé m.a. gert með viðvarandi eftirliti með upplýsingagjöf útgefenda verðbréfa, eftirliti með viðskiptahegðun þátttakenda á markaði, svo sem mögulegum innherjasvikum og markaðsmisnotkun, og með athugunum á skýrslum eftirlitsskyldra aðila til fjármálaeftirlitsins.