Í nýju frumvarpi Willums um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur er meðal annars lagt til að innflutningur, framleiðsla og sala á nikótínvörum og rafrettum sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð, verði bönnuð.
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að takmarkanirnar séu lagðar til, til þess að draga úr neyslu barna og ungmenna á nikótínvörum, sem hafi notið mikilla vinsælda hjá hópnum að undanförnu.
Þessu til stuðnings bendir Willum á að rannsóknir hafi sýnt að bragðefni, sérstaklega nammi- og ávaxtabragð, spili stóran þátt í því hversu vinsælar rafrettur eru meðal barna og ungmenna og rök falli til þess að telja að hið sama gildi um vinsældir nikótínpúða hjá ungmennum.
Nikótínvörur óheimilar í menntastofnunum
Þá leggur hann að sama skapi til að notkun nikótínvara verði óheimil í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og öðrum menntastofnunum sem og í húsakynnum sem ætluð eru til dagvistunar og félags-, íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna.
Sérstök áhersla verður lögð á, samkvæmt frumvarpinu, að fræðslu í grunn- og menntaskólum og skólum sem mennta fólk til starfa að uppeldis-, fræðslu- og heilbrigðismálum.
Uppfært 11. mars klukkan 08:45
Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ályktað að orðalagið „öðrum menntastofnunum“ ætti við um næsta skólastig, háskólastig. Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra segir frumvarpið ekki eiga við um háskóla. Fyrirsögn hefur verið breytt og fréttin uppfærð.