Verkefninu var hleypt af stokkunum í Skyrgerðinni í Hveragerði. Haraldur Þorleifsson er maðurinn á bak við rampaverkefnið. Nú er búið er að koma upp 100 römpum í Reykjavík og þá er komið að landsbyggðinni.
„Það er bara svo mikið, sem þarf að rampa upp. Þetta er búið að ganga ótrúlega vel. Við erum búin að klára fyrstu 100 rampana og erum bara mjög spennt með næstu þúsund um allt land,“ segir Haraldur.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir Harald ótrúlegan mann.
„Já, því það skiptir svo miklu máli að eiga fólk, sem keyrir svona mikilvæg baráttumál áfram. Það er bara heiður að fá að taka þátt í svona verkefni og að ríkið, sveitarfélög, einkafyrirtæki og Haraldur, taki þátt í því. Við getum öll tekið höndum saman til að ná fram í rauninni löngu tímabærum umbótum í samfélaginu,“ segir Katrín.

Ríkið kemur með 200 milljónir króna inn í verkefnið, Haraldur kemur með stóran hluti, auk fyrirtækja og sveitarfélaga, sem taka líka þátt.
„Þetta er bara einstakt, þarna er einstaklingur, sem sýnir bæði frumkvæði og löngun og djörfung og dug og framkvæmir. Það ættu allir að vera menn eins og Haraldur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson , innviðaráðherra

En á Haraldur nóg af peningum til að fara út í þetta verkefni og önnur verkefni, sem hann er með á sinni könnu?
„Ég á allavega nóg af peningum fyrir því, sem ég þarf að gera,“ segir hann og hlær.
