Undanfarnar vikur hefur verið stígandi í fjölda inflúensugreininga hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að líklegt sé að eiginlegur faraldur sé yfirvofandi. Álag vegna Covid-19 sé nú mikið á heilbrigðisstofnunum og full ástæða til að hindra eins og hægt er að inflúensufaraldur verði útbreiddur næstu vikurnar.
„Við sjáum það að það er ekki bara Covid sem að er að herja á sjúklinga og starfsfólk heldur líka inflúensa og fleiri veirupestir,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
Sigríður segir bæði börn og fullorðna hafa veikst af flensunni.
„Það er bara yfirleitt þannig með inflúensu að hún getur lagst illa á fólk sem sérstaklega er veikt fyrir. Þannig að það er kannski sami hópurinn og er viðkvæmur fyrir Covidsmiti.“
Enn þá er í boði bólusetning gegn flensunni.
Landspítalinn hefur sent út ákall til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða um að þeir mæti til starfa á spítalanum nú um helgina.
„Það eru ansi mikil afföll í hópi starfsmanna. Það sem að við stöndum frammi fyrir núna fyrir helgina er að það eru komin upp smit í starfsmannahóp á smitsjúkdómadeildinni okkar þar sem við erum að sinna Covidsjúklingunum og við þurfum liðsauka. Þannig að við höfum verið að kalla eftir því að fólk sem að hefur kannski lagt okkur lið áður og vinnur kannski á öðrum stofnunum og sér sér fært og koma og taka einhverjar vaktir um helgina þá væri það afskaplega vel þegið.“