Fótbolti

Elías Rafn meiddur: Ingvar kallaður inn í lands­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingvar Jónsson kemur inn í landsliðshóp Íslands.
Ingvar Jónsson kemur inn í landsliðshóp Íslands. Vísir/Hulda Margrét

Ingvar Jónsson, markvörður Íslands- og bikarmeistara Víkings, hefur verið kallaður inn í landsliðshóp Íslands fyrir komandi æfingaleiki. Ástæðan er sú að Elías Rafn Ólafsson meiddist í leik með Midtjylland í dag og verður frá í einhvern tíma vegna þess.

Elías Rafn stóð vaktina að venju er Midtjylland vann nauman eins marks sigur á Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í dag. 

Sigurmarkið kom í uppbótartíma en fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma lenti Elías Rafn í samstuði við framherja Silkeborgar og þurfti að yfirgefa völlinn í kjölfarið.

Elías Rafn hefur nú dregið sig úr landsliðshópnum sem mætir Finnlandi og Spáni þann 26. og 29. mars á Spáni.

Hinn 32 ára gamli Ingvar á að baki átta A-landsleiki. Sá síðasti kom árið 2019 en upphaflega stóð til að hann myndi spila æfingaleiki liðsins fyrr á þessu ári. Meiðsli komu í veg fyrir það en mögulega fær hann tækifæri nú.

Leikir Íslands gegn Finnlandi og Spáni verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

De Gea fær ekki að mæta Íslandi

David de Gea, markvörður Manchester United, fékk ekki sæti í spænska landsliðshópnum sem mætir Íslandi í vináttulandsleik í fótbolta í La Coruña 29. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×