Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt var fyrirtækið Rifós heimsótt en saga fiskeldis í Lóni í Kelduhverfi teygir sig meira en fjörutíu ár aftur í tímann. Aldrei áður hefur þó verið byggt eins mikið þar upp og nú. Rifós er að byggja upp seiðaeldisstöð og það hefur þýtt mikil umsvif í sveitinni.
„Gríðarlega mikil síðustu tvö ár,“ segir Fannar Helgi Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Rifóss, og sýnir okkur tvö stór stálgrindarhús.
„Þannig að hér hefur verið mikil fjárfesting. Ég hugsa að það sé að nálgast milljarðinn hérna.“

Í stöðinni eru alin upp laxaseiði sem á endanum fara í sjókvíar á Austfjörðum en Rifós er í eigu Fiskeldis Austfjarða.
„Hér fundu þeir tíu gráðu heitt vatn, í ómældu magni. Þannig að það er ástæðan fyrir því að seiðastöðin var byggð hér á þessum stað.“
-Þannig að náttúrulegar aðstæður henta vel hér?
„Já, alveg endalaust vatn hérna,“ svarar Fannar.
Starfsmenn eru núna sextán talsins. Þeirra á meðal er bóndinn á nágrannabænum Fjöllum, Guðmundur Héðinsson.
„Maður þarf að hafa eitthvað annað með sauðfénu. Það er ekki að skila svo miklu,“ segir Guðmundur.

Meirihluti starfsmanna býr á Húsavík en nokkrir koma úr sveitinni.
„En þetta er náttúrlega eins og fyrir mig, og fleiri hérna úr sveitinni, alveg snilld að hafa aðgang að einhverri annarri vinnu heldur en bara þessari hefðbundnu búfjárrækt og hafa tekjur af einhverju öðru heldur en því,“ segir bóndinn á Fjöllum.
Framkvæmdastjóri Rifóss segir þegar farið að huga að frekari fjárfestingum.
„Ef allt gengur vel fyrir austan og ef áform standa, þá þurfum við að byggja meira hér, framleiða meira af seiðum. Það er bara mjög jákvætt.“
-Þýðir það þá fleira starfsfólk?
„Að sjálfsögðu. Það kallar á meira starfsfólk,“ svarar Fannar Helgi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Rifós byggir samhliða upp aðra seiðaeldisstöð við Kópasker, sem ætlað er að taka við smáseiðum úr Lóni til áframeldis. Hér má sjá frétt um þá stöð: