„Mér líður bara mjög vel en þetta hefur náttúrlega verið stór þáttur í starfseminni síðustu tvö ár. Orðinn smá partur af okkur, ljúfsárt, örlítið, en auðvitað allir fegnir að þessum kafla sé lokið. Ég fékk nú alveg smá svona; ætli þessu sé nú ekki örugglega lokið?“ segir Brynhildur í samtali við Vísi.
Nú tekur við frágangur húsakynna Íslandshótela, og verið að búa þau undir að taka við túristum sem teknir eru að streyma til landsins í stríðum straum.
„Við þurfum að skila húsinu af okkur 1. apríl. Og það hafa verið fáir gestir síðustu vikur, bara við sérstakar aðstæður,“ segir Brynhildur.
Á rúmum tveimur árum hafa um 15.000 einstaklingar af fjölmörgum þjóðernum dvalið í farsóttarhúsum og notið aðstoðar starfsfólks og sjálfboðaliða Rauða krossins í Reykjavík og á Akureyri. Þegar mest var störfuðu um 80 manns á 7 hótelum.
Farsóttarhúsunum var lokað í nokkrar vikur í maí 2020 þegar vonir stóðu til að faraldrinum væri lokið, en annað kom á daginn og því þorir Brynhildur ekki að slá neinu á fast með það.
„Starfinu var í byrjun, mestmegnis haldið uppi af sjálfboðaliðum. En það er ekki hægt í svona verkefnum til lengri tíma. Þetta hefur verið magnað.“