Körfubolti

Töpuðu fyrir vængbrotnum Stríðsmönnum og rifust á hliðarlínunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Spoelstra og Jimmy Butler öskruðu á hvorn annan í leikhléi.
Erik Spoelstra og Jimmy Butler öskruðu á hvorn annan í leikhléi. getty/Eric Espada

Þrátt fyrir að vera án fjölmargra lykilmanna vann Golden State Warriors efsta lið Austurdeildarinnar, Miami Heat, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 104-118.

Stephen Curry er meiddur og Steve Kerr hvíldi einnig Klay Thompson, Draymond Green og Otto Porter gegn Miami í nótt. En það kom ekki að sök.

Mótlætið fór í taugarnar á Miami-mönnum sem rifust í leikhléi eftir 19-0 byrjun Golden State í seinni hálfleik. Jimmy Butler og þjálfarinn Erik Spoelstra áttu í orðaskiptum og Butler reifst svo við Udonis Haslem.

Jordan Poole skoraði þrjátíu stig fyrir Golden State og þeir Jonathan Kuminga, Andrew Wiggins og Damion Lee 22 stig hver. Kyle Lowry skoraði 26 stig fyrir Miami og Bam Adebayo 25 stig.

LeBron James lék ekki með Los Angeles Lakers þegar liðið tapaði fyrir Philadelphia 76ers á heimavelli, 121-126.

Joel Embiid skoraði þrjátíu stig fyrir Sixers og James Harden 24. Philadelphia er í 2. sæti Austurdeildarinnar og er aðeins tveimur sigrum frá efsta sætinu.

Gott gengi Boston Celtics hélt áfram þegar liðið sigraði Utah Jazz, 125-97. Þetta var fimmti sigur Boston í röð og níundi sigurinn í síðustu tíu leikjum.

Jayson Tatum og Jaylen Brown skoruðu 26 stig hvor fyrir Boston. Donovan Mitchell var langstigahæstur í liði Utah með 37 stig.

Úrslitin í nótt

  • Miami 104-118 Golden State
  • LA Lakers 121-126 Philadelphia
  • Boston 125-97 Utah
  • Charlotte 106-121 NY Knicks
  • Detroit 122-101 Atlanta
  • Indiana 109-110 Sacramento
  • Memphis 132-120 Brooklyn
  • Minnesota 116-125 Phoenix
  • Oklahoma 118-102 Orlando
  • Dallas 110-91 Houston
  • Portland 96-133 San Antonio
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×